Sport

Hrafnhildur aftur í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir, sundkona úr SH, komst í morgun í undanúrslit á EM í 50 m laug í annað skiptið á mótinu, þegar hún keppti í 200 m bringusundi.

Hranfhildur synti á 2:30,54 mínútum sem skilaði henni í áttunda sæti en efstu sextán keppendurnir komust áfram í undanúrslitin sem hefjast klukkan 16.09 í dag. Keppnin er sýnd í beinni útsendingu á Eurosport.

Hrafnhildur mun þá gera atlögu að OQT-lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum (gamla A-lágmarkið) en til þess þarf hún þó að bæta sig um þrjár og hálfa sekúndu.

Hún virðist þó eiga talsvert inni fyrir undanúrslitasundið þar sem hún var tæpum tveimur sekúndum frá Íslandsmetinu sinni í greininni.

Hrafnhildur komst einnig í undanúrslit í 100 m bringusundi en hafnaði þá í fjórtánda sæti.

Erla Dögg Haraldsdóttir, ÍRB, keppti í 200 m bringusundi í morgun og synti vegalengdina á 2:36,25 mínútum. Það skilaði henni í 28. sæti. Erla Dögg hefur nú lokið keppni á EM í Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×