Innlent

Milljaður í endurbætur á sundlaugum í Reykjavík

Frá framkvæmdum við Laugardalslaug.
Frá framkvæmdum við Laugardalslaug.
Leiktæki, nýir heitir pottar, endurgerð búningsaðstöðu, eimböð og viðgerðir eru meðal þeirra atriða sem vinna á að í sundlaugum Reykjavíkur á þessu ári. Sérstakt stórhuga átaksverkefni sem borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum gerir ráð fyrir nær milljarði til þessa verkefnis næstu þrjú árin. 500 milljónir í ár, 400 milljónir á því næsta og 70 milljónir árið 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Mörg verkefnin sem nú hafa verið samþykkt eru í beinu framhaldi af því átaki sem hófst í fyrra, en þá var blásið til sóknar fyrir betri sundlaugar í Reykjavík. Mörgum verkefnanna verður lokið með fjárveitingum í ár, en eins verður nýjum verkefnum ýtt af stað í ljósi óska sundlaugargesta og starfshóps sem vinnur nú að framtíðarsýn fyrir sundlaugarnar í Reykjavík með lífsgæði borgarbúa, sérstöðu Reykjavíkur og tækifæri sem áfangastaður ferðamanna að leiðarljósi.

Meðal verkefna sem bætast nú á framkvæmdaáætlun er nýr heitur pottur í Vesturbæjarlaug en þar verða böð og búningsklefar endurgerðir, auk viðgerða á útiklefum. Þá verður bætt við leiktækjum fyrir sumarið og unnið að viðgerðum utanhúss. Í Sundhöllina koma einnig ný leiktæki en einkum verður farið í margvíslegar þarfar viðgerðir svo sem á laugarsalnum, sturtuklefum og útisvæði. Við Árbæjarlaug er verið að koma fyrir eimbaði og nýjum potti.

Einnig verða komin ný leiktæki fyrir sumarið. Í Grafarvogslaug koma einnig ný leiktæki, auk þess sem á verkefnaskránni er endanlegur frágangur við nýtt eimbað, sem opnað var í byrjun ársins. Í Breiðholtslaug verða stigin vistvæn skref og jafnframt hagkvæm með uppsetningu á klórframleiðslutækjum fyrir útilaug.

Eimbað Breiðhyltinga verður endurnýjað á næsta ári, en það hefur verið um nokkurt skeið í bráðabirgðaherbergi. Þá leggur starfshópurinn til að lóð vestan við laugina verði boðin út fyrir líkamsræktarstöð í tengslum við laugina. Við Ylströndina Nauthólsvík er verið að ljúka gerð eimbaðs og ástand Klébergslaugar verður tekið út. Endurnýjun á Laugardalslaug hefur mælst vel fyrir og þar er mörgum þáttum þegar lokið. Á þessu ári verður sjópottur opnaður, komið fyrir hreystitækjum, gert við útiklefa og vinna hefst við endurgerð búningsklefa inni og mun sú vinna standa fram á næsta ár, auk margvíslegra viðhaldsverkefna. Þá verður komið fyrir klórframleiðslutækjum fyrir útilaug, en það er hvort tveggja hagkvæmt og vistvænt.

Borgarráð gaf á fundi sínum í lok apríl grænt ljós á áframhaldandi hönnun og framkvæmdir við sundlaugarmannvirkin í samræmi við fjárhags- og framkvæmdaáætlun borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×