Innlent

Tíminn illa nýttur frá hruni og tækifærum kastað á glæ

Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Gildi.
Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Gildi.
Stjórnvöld hafa ekki nýtt tímann sem skyldi frá hruni og þau kasta verðmætum á glæ með því að nýta ekki tækifærin. Þetta er kjarninn í snarpri gagnrýni tveggja kvenna, sem fram kom á fundi Samtaka atvinnulífsins í fyrradag um opinberar fjárfestingar.

Áður en forystumenn flokkanna lýstu því hvernig þær sæju fjárfestingum best hrundið af stað hlýddu þeir á framsöguerindi sem drógu upp heldur dapra mynd.

Heiðrún Jónsdóttir, stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Gildi, lýsti stöðu efnahagsmála þannig að framleiðsluslaki væri sá mesti eftir stríð, atvinnuleysi sjaldan mælst meira, fjárfesting í sögulegu lágmarki, veikur vöxtur einkaneyslu, lítill magnvöxtur í útflutningi, gjaldeyrishöft væru fremur að herðast og verðbréfamarkaðurinn væri veikur.

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagði Heiðrún að tíminn frá hruni hefði ekki verið nýttur sem skyldi.

Rammaáætlun var mikið rædd og kom fram í erindi Bryndísar Skúladóttur, forstöðumanns umhverfismála hjá Samtökum iðnaðarins, að nokkrir virkjunarkostir, sem röðuðust ofarlega í nýtingu hjá verkefnisstjórn, hefðu síðan farið inn í verndarflokk.

Sumir hefðu verið mjög langt komnir í undirbúningi, og miklum fjármunum verið kostað til. Því þyrfti að rökstyðja mjög vel hversvegna þeir færu í verndarflokk. Þau rök væru ekki sterk hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar, að mati Bryndísar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×