Innlent

Kona hljóp á staur og karlmaður reyndi að brjóta rúður

Þau voru fjölbreytt verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Þannig þurfti lögreglan að aðstoða unga konu á Laugaveginum við Barónstíg seint í gærkvöldi. Í fyrstu var talið að ekið hefði verið á hana. Síðar kom í ljós að hún hafði hlaupið á járnstaur og þannig hlotið meiðsl á mjöðm og á hendi.

Þá þurfti lögreglan einnig að hafa afskipti af fimmtán ára gömlum unglingum um miðnætti þegar þeir báru áfengi út af veitingastað Í Hafnarfirði.

Það var svo um klukkan hálf fjögur í nótt þegar lögreglan fékk tilkynningu um æstan karlmann í miðborginni. Sá hafði sparkað í rúður verslana við Laugaveg en ekki tekist að brjóta þær. Þegar lögreglan hafði afskipti af manninum henti hann frá sér bakpoka en í ljós kom að í honum var að finna fíkniefni. Maðurinn var því færður á næstu lögreglustöð.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Austurstræti um klukkan rúmlega tvö í nótt. Ung kona var þá flutt á Slysadeild þar sem sagt var að hún væri  nefbrotin. Vitað um geranda og er málið í rannsókn samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×