Enski boltinn

Óvíst hvort Wilshere verði klár í upphafi næsta tímabils

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wilshere er lykilmaður í framtíðarplönum Arsene Wenger.
Wilshere er lykilmaður í framtíðarplönum Arsene Wenger. Nordic Photos / Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir ekki víst hvort miðjumaðurinn Jack Wilshere verði klár í slaginn við upphaf næsta keppnistímabils.

Wilshere hefur verið frá keppni síðan í maí 2011 þegar hann meiddist á ökkla í leik gegn Fulham. Wilshere fór í árangursríkan uppskurð en meiddist á ný í endurhæfingu í janúar.

Ljóst er að Wilshere spilar ekki með Arsenal í þeim þremur leikjum sem eftir eru í deildinni. Þá hefur hann verið útilokaður frá þátttöku með enska landsliðinu á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu í sumar.

Bretar bundu þó vonir við að hann yrði klár í slaginn á Ólympíuleikunum í London sem hefjast í lok júlí. Arsene Wenger líst hins vegar ekki á þær pælingar.

„Ég vil ekki að hann setji sér það markmið að spila á Ólympíuleikunum í sumar vegna þess að enn er óvíst hvort hann verði klár í upphafi næstu leiktíðar," sagði Wenger. Franski knattspyrnustjórinn segir Wilshere hafa orðið fyrir nógu miklum vonbrigðum í endurhæfingu sinni.

„Hann varð fyrir fyrsta áfallinu en gat huggað sig við þátttöku á Evrópumótinu. Svo þurfti að gera honum ljóst að hann gæti ekki spilað á Evrópumótinu. Þá varð hann aftur fyrir vonbrigðum," segir Wenger.

„Ef við gerum Ólympíuleikana að nýju takmarki og hann nær því ekki er það slæmt veganesti í endurhæfingu hans," sagði Wenger sem vill að enski miðjumaðurinn fái næði til að vinna í sínum meiðslum einn dag í einu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×