Innlent

Saka stjórnvöld um slóðaskap

Guðmundur Franklin Jónsson, formaður Hægri grænna.
Guðmundur Franklin Jónsson, formaður Hægri grænna.
Hægri grænir, flokkur fólksins, fordæmir það sem þeir kalla slóðaskap stjórnvalda gegn fólkinu í landinu. Þannig gagnrýnir framboðið meintan slóðaskap stjórnvalda á endurútreikningum- og greiðslum bankanna vegna ólöglegra gengislána til íslenskra heimila.

Þá segir í tilkynningu frá framboðinu að nú séu tveir og hálfur mánuður liðinn síðan dómur féll í Hæstarétti, og ekki hafi ein króna verið borguð til baka. Þá segir ennfremur í tilkynningu Hægri grænna að norræn velferðarstefna stjórnvalda sé aðhlátursefni í fermingum og saumaklúbbum.

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:

Ályktun Hægri grænna, flokks fólksins frá 27.apríl 2012

Hvar eru endurútreikningarnir á gengislánunum, Jóhanna Sigurðardóttir?

Hægri grænir, flokkur fólksins fordæmir slóðaskap stjórnvalda gegn fólkinu í landinu á endurútreikningum- og greiðslum bankanna vegna ólöglegra gengislána til íslenskra heimila. Nú eru tveir og hálfur mánuður liðinn síðan dómur féll í Hæstarétti og ekki 1 króna hefur verið borguð til baka, og bankarnir sýna viðskiptavinum sínum þann dónaskap að senda þeim falsreikninga og rukka þá enn um ólögmætan ofanásmurning við hver mánaðarmót.

Lýðskrum forsætisráðherra

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sagði þegar hún tók við völdum að það væri kominn tími til þess að hlusta á fólkið í landinu og seinna í aðsendri grein í Fréttablaðið þann 17. febrúar síðastliðinn að: „Eitt helsta viðfangsefni ríkisstjórnar og Alþingis allt frá hruni hefur verið að leita leiða til að verja heimili landsins fyrir þeim skelfilegu afleiðingum sem hrunið hafði í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf."

Ekkert er að marka orð forsætisráðherra og allar lausnir stjórnvalda á skuldavanda heimilanna hafa verið eitt klúður og aðeins 650 heimilum hefur verið bjargað með 110% leiðinni. Stærstur hluti afskriftanna féll öðrum í skaut en þeim sem þurftu á hjálp að halda. Meira en 40.000 heimili eiga í fjárhagsvanda samkvæmt opinberum tölum. Jóhanna virðist gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að klekkja á íslenskum heimilum og er fyrsti forsætisráðherrann í lýðveldissögunni sem hefur sett afturvirk lög til höfuðs heimilum landsmanna.

Í hvaða landi býrðu Jóhanna?

Pyngjur landsmanna léttast og færri krónur eru eftir um hver mánaðarmót. Norræn velferðarstefna stjórnvalda er aðhlátursefni í fermingum og saumaklúbbum. Í dag þarf fólkið og fyrirtækin í landinu að berjast við erlenda vogunarsjóði, afborganir af stökkbreyttum húsnæðislánum með heimalagaðri verðbólgu, aukinni skattpíningu, hækkandi matvælaverði, gjaldskráhækkunum og löngu ákveðin framtíðarplön fjölmargra einstaklinga brostin. Lánlausa vinstri stjórnin virðist engan skilning hafa eða lausnir á efnahagsvandanum. Hækkun heimsmarkaðsverðs eldsneytis og lágt gengi krónunnar ítir upp grunninum sem opinber gjöld af eldsneyti reiknast af. Það er mikið tillitsleysi af ríkinu að kunna sér ekkert hóf við þær aðstæður sem nú eru. Hægri grænir, flokkur fólksins undrar sig á þessu aðgerðarleysi forsætisráðherra og það er engu líkara en að hún búi í öðru landi.

Hvar eru endurútreikningarnir á gengislánunum og peningar fólksins í landinu, Jóhanna Sigurðardóttir!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×