Innlent

Dópaður á krossara - fær tíu kærur á sig

Lögreglan á Selfossi veitti manni í bænum eftirför í gær eftir að hann hafði ekki sinnt fyrirmælum um að stöðva farartæki sitt. Maðurinn var á númerslausu torfæru hjóli og endaði eftirförin á skógræktarsvæðinu í Hellismýri, fyrir utan bæinn. Þar hafði hann fest hjólið í drullu utanvegar og gat sig hvergi hrært.

Að sögn lögreglu á maðurinn tíu kærur yfir höfði sér, níu fyrir umferðarlagabrot af ýmsum toga og eina fyrir framleiðslu fíkniefna. Þegar lögreglan hafði hendur í hári hans vaknaði grunur um að hann væri undir áhrifum fíkniefna og því var farið í húsleit hjá honum þar sem fundust tíu kannabisplöntur.

Á meðal umferðarbrota sem maðurinn verður kærður fyrir má nefna háskaakstur, akstur undir áhrifum, akstur án ökuréttinda, akstur óskráðs ökutækis, hraðakstur og akstur ótryggðs ökutækis.

Þá var kona stöðvuð á Suðurlandsveginum í nótt. Vegfarendur höfðu samband við lögreglu út af aksturslagi hennar sem þótti meira en lítið skrítið. Það kom á daginn því þegar lögregla hafði upp á henni var hún rásandi um allan veg og skapaði þar með stórhættu. Hún var stöðvuð með það sama og flutt á lögreglustöð. Hún reyndist undir verulegum áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×