Enski boltinn

Van Persie: Var ekki viss um að ég gæti þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie.
Robin van Persie. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robin van Persie, framherji Arsenal, hefur farið á kostum með liðinu síðan að stjórinn Arsene Wenger færði hann framar á völlinn þegar Emmanuel Adebayor yfirgaf félagið.

Robin van Persie hefur skorað 44 mörk í 56 leikjum undanfarin tvö tímabil og er með 26 mörk og 12 stoðsendingar í 31 leik í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ég var að vonast til þess að spila sem afturliggjandi framherji og ég hélt aldrei að ég gæti spilað sem fremsti maður," sagði Robin van Persie við The Sun.

„Við prufuðum þetta ekki fyrr en að Adebayor fór. Stjórinn vildi ekki kaupa neinn framherja í staðinn og var sannfærður um að ég gæti leyst þessa stöðu þótt að ég sjálfur væri ekki viss," sagði Robin van Persie.

„Í fyrstu fimm til sex leikjunum var ég bara að senda stoðsendingar en náði ekki að skora. Ég fór að hugsa: Ég er aðalframherjinn og þarf að fara að skora mörk," sagði Van Persie og hann er með tölfræðina á hreinu.

„Eftir að ég skoraði fyrsta markið mitt þá skoraði ég sjö mörk í sjö leikjum og gaf sjö stoðsendingar að auki," rifjaði van Persie upp fyrir blaðamanni The Sun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×