Enski boltinn

Antonio Valencia: 13 stoðsendingar í síðustu 14 leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Valencia hefur spilað frábærlega með Manchester United síðustu mánuði og á mikinn þátt í því að liðið er komið með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Valencia skoraði fyrra marið og lagði upp það síðara í 2-0 sigri á Blackburn á mánudagskvöldið.

Antonio Valencia hefur nú gefið 13 stoðsendingar í síðustu 14 deildarleikjum sínum auk þess að skora í þeim fjögur mörk sjálfur. Hann var meiddur í upphafi tímabilsins og var aðeins tvisvar í byrjunarliðinu fram í desember en lagði upp þrjú mörk í sigri á Wolves 10. desember og hefur ekki litið til baka síðan.

„Ég er alltaf að reyna að bæta mig og minn leik. Það eru stjórinn og starfsmenn liðsins sem leggja mat á minn leik en ég alltaf ánægður að heyra eitthvað jákvætt um mína frammistöðu hvort sem það er frá fjölmiðlamönnum eða stuðningsmönnum," sagði Antonio Valencia við Daily Mirror.

„Það eina sem ég get gert er að vera þakklátur og svona virkar bara sem hvatning fyrir mann að ná lengra og gera enn betur. Ég er mjög ánægður með að vera laus við meiðslin og vonandi fær ég tækifæri til að spila til enda tímabilsins," sagði Antonio Valencia hógvær.

Það er hægt að sjá mark og stoðsendingu Antonio Valencia á móti Blackburn með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×