Enski boltinn

Phil Neville: United verður búið að klára þetta fyrir City-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Neville og bróðir hans Gary Neville með enska meistarabikarinn.
Phil Neville og bróðir hans Gary Neville með enska meistarabikarinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Phil Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi fyrirliði Everton, spáir því að hans gömlu félagar í Manchester United verði búnir að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn áður en liðið heimsækir Manchester City 30. apríl.

Manchester United er komið með fimm stiga forskot á City og getur náð átta stiga forskoti með heimasigri á Queens Park Rangers um helgina.

„Ég held að titilinn verði í húsi áður en kemur að þessum leik á Etihad. Það verður ekki derby-leikurinn sem skilar United titlinum heldur leikir á móti liðum eins og Blackburn, Swansea og Sunderland. Eins og er þá er Manchester United að klára þá leiki betur en City," sagði Phil Neville.

„City mætir næst Arsenal á útivelli sem er mjög erfiður leikur. Það fellur allt með Manchester United þessa dagana og þeir hafa líka reynsluna," sagði Neville.

„Fyrir mánuði síðan sáu allir leikinn á Etihad fyrir sér sem úrslitaleik og ég held meira að segja að Roberto Mancini hafi talað um það sjálfur. Ég skoðaði hinsvegar leikjaplanið og sá að það voru margir hættulegir leikir fyrir þá fram að því," sagði Phil Neville sem varð sex sinnum enskur meistari með Manchester United á þeim tíu árum sem hann spilaði á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×