Enski boltinn

Rodgers líkir Gylfa Þór við Frank Lampard

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rodgers fagnar með Garry Monk og Gylfa eftir sigurinn á Manchester City á dögunum.
Rodgers fagnar með Garry Monk og Gylfa eftir sigurinn á Manchester City á dögunum. Nordic Photos / Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, segir að hann hafi vitað nákvæmlega hversu mikil gæði hann væri að fá í hendurnar þegar hann fékk Gylfa Þór að láni frá Hoffenheim.

„Hann hefur verið frábær viðbót. Ég vissi nákvæmlega hvað ég var að fá og hann hefur staðið sig frábærlega. Vonandi nær hann að fylgja frammistöðu sinni eftir út tímabilið," sagði Rodgers sem kynntist Gylfa fyrst er Hafnfirðingurinn var á mála hjá Reading.

Rodgers líkir Gylfa við Frank Lampard, leikmann Chelsea.

„Honum svipar til Frank Lampard. Hann kemur sér inn í markteiginn, er skotviss með hægri fæti sem þeim vinstri og getur skorað með skalla líkt og á móti Fulham," sagði Rodgers um Gylfa sem skoraði tvívegis í sigri Swansea á Craven Cottage.

„Hann er miðjumaður sem skorar mikið af mörkum og þeir vaxa ekki á trjánum," segir Rodgers sem segir Gylfa afar duglegan á æfingasvæðinu. Hann sé afar einbeittur á að bæta skot sín.

„Hann hefur sama metnað og Frank Lampard sem vann hart að því að bæta sig," sagði Rodgers í samtali við Sky Sports fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×