Enski boltinn

Mancini: Ég hefði gefið Balotelli einn á hann á hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Mario Balotelli.
Roberto Mancini og Mario Balotelli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, sagðist stundum verða svo pirraður á vandræðagemlingnum Mario Balotelli að hann hefði gefið honum einn á hann á hverjum degi ef að þeir hefðu verið liðsfélagar hér á árum áður.

Mancini var í miklu grínstuði á blaðamannafundinum því hann nefndi það líka að hann gæti ekki talað við Balotelli á hverjum degi því það þýddi aðeins meðferð hjá sálfræðingi fyrir hann sjálfan.

Mancini skilur því liðsfélaga Mario Balotelli vel sem margir hverjir eru alveg búnir að fá nóg af honum.

„Ég skil þá vel. Ég hef sagt honum það að ef hann hefði spilað með mér fyrir tíu árum þá hefði ég gefið honum á hann á hverjum degi," sagði Roberto Mancini.

„Við þurfum samt að fara aðrar leiðir í dag til að hjálpa mönnum eins og Mario. Hann hefur spilað vel í öllum stóru leikjunum en vandamálið er fyrst og fremst einbeitingarleysi. Ég vinn með honum á hverjum degi," sagði Mancini.

„Ég tala við hann, reyndar ekki á hverjum degi því þá þyrfti ég að hitta sálfræðing, en annan hvern dag tala ég við hann. Hann hefur ekki misst hæfileika sína og leikmaðurinn Mario getur orðið einn af þeim bestu í Evrópu. Ég vil ekki að hann missi hæfileika sína," sagði Mancini.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×