Enski boltinn

Dalglish: Ég hef aldrei lent í svona áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool,
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, ætlar að halda sínu striki og hvorki að gefast upp eða breyta sínum aðferðum þrátt fyrir skelfilegt gengi liðsins á undanförnu. Liverpool hefur aðeins náð í fjögur stig út úr síðustu átta leikjum sínum.

„Ég veit ekki hvort ég hafi einhvern tímann lent í svona taphrinu áður. Ég man ekki eftir því, hvorki sem stjóri eða leikmaður eða jafnvel sem stuðningsmaður. Einhver sagði mér að þetta væri versta hrina félagsins síðan 1953 en ég ekki orðin svo gamall að ég muni eftir því," sagði Kenny Dalglish.

Liverpool hefur aðeins unnið 2 af 12 deildarleikjum sínum á þessu ári og nágrannarnir í Everton eru komnir upp fyrir þá í töflunni.

„Það eru allir vonsviknir með úrslitin og auðvitað er miklu skemmtilegra þegar þú vinnur leiki. Ég hef verið vonsvikinn en ég hef aldrei gefist upp," sagði Dalglish og hann ætlar ekki að gagnrýna sína leikmenn opinberlega.

„Það þurfa allir að rífa sig upp og besta leiðin til þess er að vinna næsta leik. Við þurfum að horfa í eigin barm og finna út hvernig við leysum okkar vandamál. Það er enginn að leita að einhverri samúð og ég held að við fengjum hana hvort sem er ekki. Fólk getur haft sína skoðun en það sem skiptir máli er það sem er sagt innan veggja félagsins," sagði Dalglish.

„Við getum ekki verið í einhverri sjálfsvorkun. Við verðum að leggja mikið á okkur og halda trúnni á okkur sjálfa því það býr mikið í liðinu," sagði Dalglish að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×