Enski boltinn

Cisse með tvö fyrir Newcastle - þriðja tap Swansea City í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Gylfa Þór Sigurðssyni tókst ekki að opna markareikning sinn á Liberty Stadium þegar Swansea City tapaði 0-2 á heimavelli á móti Newcastle í eina leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Það var Papiss Cisse sem var maður dagsins en hann skoraði bæði mörk Newcastle í leiknum.

Swansea City var þarna að tapa sínum þriðja leik í röð og velsku nýliðarnir virðast aðeins vera að gefa eftir frábæra frammistöðu á þessu tímabili. Gylfi Þór var ógnandi eins og áður, átti nokkrar fínar tilraunir í leiknum en hafði ekki heppnina með sér.

Papiss Cisse hefur þar með skorað tvö mörk í þremur leikjum í röð, 3-1 sigri á West Brom, 2-0 sigri á Liverpool og svo þessum 2-0 sigri á Swansea. Cisse hefur alls skorað 9 mörk í átta leikjum í ensku úrvalsdeildinni síðan að hann kom frá Freibourg í janúar.

Papiss Cisse skoraði fyrra markið sitt með góðu skoti strax á 5. mínútu eftir að Yohan Cabaye var fljótur að hugsa og stakk boltanum inn á hann í teignum.

Seinna mark Cisse kom á 69. mínútu og var það mjög laglega afgreitt hjá Senegalmanninum. Hann fékk boltann líka aftur frá Yohan Cabaye en Frakkinn átti báðar stoðsendingarnar á hann í dag.

Newcastle hefur unnið fjóra leiki í röð og Papiss Cisse hefur skorað í þeim öllum. Þessi sigur í dag þýðir að Newcastle-liðið er aðeins tveimur stigum á eftir Arsenal og Tottenham sem eru í 3. og 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×