Enski boltinn

Mancini: Getur vel verið að ég missi starfið mitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að það sé ekkert öruggt að hann fái að vera áfram í starfi eftir tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.

City hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum og er nú fimm stigum á eftir toppliði Manchester United þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Mancini hefur reyndar ekki trú á því að hann muni missa starf sitt, jafnvel þótt að City verði ekki Englandsmeistari í vor. Hann segir stutt í að félagið vinni marga titla á hverju einasta tímabili.

Eigandi City er hinn moldríki Khaldoon al-Mubarak og Mancini segir að það sé frábært að vinna með honum.

„Samband mitt við Khaldoon er frábært. Jafnvel þótt hann myndi segja mér upp í lok tímabilsins eða eftir það næsta myndi ég samt segja að hver sem fengi tækifæri til að vinna með honum væri mjög heppinn," sagði Mancini við enska fjölmiðla.

„Ég mun halda áfram að sinna mínu starfi. Ég er viss um að félagið sé farið að nálgast toppinn. Með því að bæta 2-3 leikmönnum við hópinn í sumar mun félagið fara að vinna marga titla, 2-3 titla á hverju ári."

„Ég veit að ég gæti misst þetta starf á hverri stundu. En það sem mér finnst mikilvægast er að leikmannahópurinn er mun betri í dag en hann var fyrir tveimur árum. Við erum á réttri braut."

„Það er ekki mitt að ákveða framtíð mína. Ég geri mitt besta og svo verður hitt að koma í ljós."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×