Enski boltinn

United með átta stiga forskot - glórulaust rautt spjald á fyrirliða QPR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar marki sínu.
Wayne Rooney fagnar marki sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester United er komið með átta stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Queens Park Rangers á Old Trafford í dag. United var manni fleiri frá 15. mínútu þegar Shaun Derry, fyrirliði QPR, fékk rautt spjald og dæmt á sig víti fyrir lítið brot á Ashley Young.

Þetta var glórulaus dómur því Ashley Young var rangstæður en þessi rangi dómur gerði út um vonir Queens Park Rangers að fá eitthvað út úr leiknum í dag. Það er ljóst að hlutirnir eru að falla með meisturunum á lokasprettinum í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

Wayne Rooney skoraði úr vítinu sem Ashley Young fiskaði á Shaun Derry og það var eina mark fyrri hálfleiksins. United-liðið var miklu betra liðið en tókst ekki að bæta við mörkum fyrir hálfleik.

Danny Welbeck skoraði mark í byrjun seinni hálfleiks en það var dæmt af vegna rangstöðu en Paul Scholes kom United síðan í 2-0 á 68. mínútu með góðu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Rafael.

Manchester United hefur þar með unnið átta leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og ennfremur 11 af síðustu 12 deildarleikjum frá og með 14. janúar. Manchester City getur minnkað muninn í fimm stig á ný þegar liðið heimsækir Arsenal seinna í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×