Enski boltinn

Sir Alex: Þetta var rangstaða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, viðurkenndi eftir sigurleikinn á móti Queens Park Rangers í dag að hans lið átti aldrei að fá vítaspyrnu og rautt spjald á fyrirliða QPR í upphafi leiksins en Ashley Young var rangstæður þegar hann fiskaði vítið.

„Ég tel að þetta hafi verið rangstaða. Það hafa verið fullt af svona ákvörðunum á síðustu vikum. Derry gerði nógu mikið til að koma Ashley úr jafnvægi og þar sem hann var síðasti varnarmaðurinn þá átti dómarinn engan annan kost í stöðunni en að reka hann útaf," sagði Sir Alex Ferguson eftir leikinn.

„Við vorum aðeins úr takti eftir þetta og nutum þess ekki að spila. Hraðinn í liðinu var frábær fyrir rauða spjaldið og við spiluðum þá mjög vel. Rauða spjaldið hafði hinsvegar ekki góð áhrif á mitt lið," sagði Ferguson en United náði með þessu átta stiga forskoti á City á toppi deildarinnar.

„Það eina sem ég vil segja um titilbaráttuna er að við unnum leikinn. Það eru sex leikir eftir og við erum nú líka komnir með einu marki betri markatölu en City," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×