Enski boltinn

Mancini: Balotelli á skilið að fá lengra bann

Stefán Árni Pálsson skrifar
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, var allt annað en ánægður með lið sitt eftir tapið gegn Arsenal í dag.

Það hefur ekkert gengið hjá liðinu síðastliðin mánuð og eftir tapið á Emirates-vellinum í dag er liðið átta stigum á eftir Manchester United í öðru sæti deildarinnar.

„Við vorum einfaldlega lélegri aðilinn í dag og áttum ekkert meira skilið úr þessum leik. Það getur allt gerst í fótbolta og við neitum að gefast upp."

Mario Balotelli slapp með skrekkinn í byrjun leiks þegar hann tæklaði Alex Song, leikmann Arsenal, og átti réttilega að fá beint rautt spjald. Martin Atkinson, dómari leiksins, sá ekki atvikið og dæmdi ekki einu sinni aukaspyrnu. Balotelli fékk reyndar tvö gul spjöld síðar í leiknum og fauk af velli.

„Frá hliðarlínunni sá ég ekki atvikið vel en ég er búinn að sjá það núna á myndbandi og hann átti að fá rautt spjald í upphafi leiksins."

„Ég á í raun ekki til orð yfir hegðun hans í dag. Hann hefur gríðarlega hæfileika og er frábær leikmaður en svona hegðun er ekki hægt að verja. Hann olli mér miklum vonbrigðum í dag."

„Það kæmi mér ekki á óvart ef Balotelli fengi lengra bann í vikunni og í raun á hann það skilið. Hann verður að þroskast og haga sér eins og maður. Ég veit í raun ekki hvað ég get sagt eftir svona hegðun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×