Fótbolti

Reknir úr EM-hóp Pólverja fyrir drykkjulæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcin Wasilewski.
Marcin Wasilewski. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franciszek Smuda, þjálfari Pólverja, ætlar að taka strangt á agamálum innan síns liðs fram að Evrópumótinu í fótbolta í sumar og Smuda er tilbúinn að "fórna" tveimur fastamönnum til þess að sýna það í verki. Pólverjar eru gestgfjafar á EM ásamt Úkraínumönnum.

Landsliðsmennirnir Slawomir Peszko og Marcin Wasilewski fá ekki að vera með á EM í sumar eftir að upp komst um drykkjulæti þeirra um helgina. Peszko, sem leikur með Köln og Wasilewski, sem leikur með Anderlecht, lentu upp á kant við leigubílstjóra á fylleríi í Þýskalandi sem endaði á því að leigubílstjórinn keyrði þá beint upp á lögreglustöð.

„Ég mun ekki horfa framhjá þessu og þeir eru báðir út úr hópnum fyrir EM 2012. Það er enginn möguleiki fyrir þá að komast í 23 manna hópinn," sagði Franciszek Smuda við pólska fjölmiðla í gær.

Slawomir Peszko er 27 ára miðjumaður sem á að baki 24 landsleiki og Marcin Wasilewski er 31 árs varnarmaður sem á að baki 45 landsleiki. Það var talið nokkuð öruggt að þeir félagar yrðu báðir með í 23 manna lokahóp Póllands.

„Skammast þeir sín ekki? Pólverjar fá einu sinn enn slæma fjölmiðlaumfjöllun í Þýskalandi og eru enn á ný nefndir í tengslum við áfengi og slagsmál," sagði Franciszek Smuda glerharður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×