Enski boltinn

Harry Redknapp: Það verður erfitt að ná þriðja sætinu af Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Mynd/Nordic Photos/Getty
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að það verði mjög erfitt að ná þriðja sætinu af Arsenal eftir að Tottenham tapaði 1-2 á heimavelli á móti Norwich City í ensku úrvalsdeildinni í dag. Arsenal er nú tveimur stigum á undan Tottenham auk þess að eiga leik inni.

„Við höfum ekki verið að spila illa síðustu vikur en þetta var slæmur dagur hjá liðinu," sagði Harry Redknapp. „Þetta er allt samt opið ennþá og þetta verður mjög jafnt og spennandi. Það eru fimm umferðir eftir og nú snýst þetta bara um það lið sem vill þetta mest," sagði Redknapp.

„Við myndum sætta okkur við fjórða sætið því það skiptir öllu að ná Meistaradeildarsætinu. Það væri æðislegt að enda fyrir ofan Arsenal en það verður mjög erfitt úr þessu," sagði Redknapp.

„Það eru samt fullt af leikjum eftir. Chelsea á eftir að mæta Arsenal, Newcastle á eftir að spila við Chelsea og Chelsea á eftir að fara á Anfield. Hver veit hvernig þetta endar," sagði Redknapp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×