Enski boltinn

Scholes: Þjálfunin var ágæt en ekkert jafnast á við að spila

Stefán Árni Pálsson skrifar
Paul Scholes í leik með Manchester United.
Paul Scholes í leik með Manchester United. Mynd. / Getty Images
Paul Scholes, leikmaður Manchester United, sér heldur betur ekki eftir þeirri ákvörðun að taka fram skóna á ný í janúar. Scholes hefur farið á kostum með Manchester United á árinu og liðinu hefur gengið sérstaklega vel í ensku úrvalsdeildinni þegar hann er innanborð.

Paul Scholes byrjaði strax í þjálfarateymi Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóra Manchester United, þegar leikmaðurinn lagði skóna á hilluna. Þrátt fyrir að honum hafi líkað þjálfarastaðan vel dró spennan og leikurinn sjálfur hann aftur út á völlinn.

„Þjálfunin var fín en það jafnast ekkert á við að vera sjálfur út á vellinum," sagði Scholes við Sjónvarpstöð Manchester United.

„Ég mætti á hverjum degi og hitti alla strákana og það var bara erfitt að aðlagast því."

„Ég saknaði þess mikið að komast inn á völlinn. Um jólin fór ég á fund með stjóranum og sannfærði hann um að hleypa mér aftur í liðið."

„Við erum komnir í góða stöðu í deildinni en það er samt mikið eftir af tímabilinu. City er með frábært lið og líklega eitt besta lið sem við höfum keppt við í toppbaráttunni."

Manchester United mætir QPR í ensku úrvalsdeildinni á morgun en Heiðar Helguson gæti tekið þátt í þeim leik þar sem hann er búinn að jafna sig af meiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×