Enski boltinn

Redknapp vill fá Scholes aftur í landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Harry Redknapp, stjóri Tottenham.
Harry Redknapp, stjóri Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Harry Redknapp segir að það væri best fyrir enska landsliðið að fá Paul Scholes í liðið á nýjan leik. Hann segir að Steven Gerrard og Scott Parker gætu báðir tekið að sér fyrirliðahlutverk landsliðsins.

Fastlega er búist við því að Redknapp verði boðið að gerast næsti landsliðsþjálfari Englands. Hann er nú stjóri Tottenham og er að gera góða hluti með liðið. Liðið vann 5-0 sigur á Newcastle um helgina og er í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Talið er líklegt að Redknapp muni þrátt fyrir allt klára tímabilið með Tottenham. En að því loknu myndi hann þá taka við landsliðinu og stýra því á EM í sumar. Hann tæki við starfinu af Fabio Cappello sem sagði upp nú í vikunni.

Paul Scholes er kominn á fullt með Manchester United á nýjan leik eftir að hafa lagt skóna á hilluna í vor. Hann hætti að gefa kost á sér í enska landsliðið árið 2004.

„Nú skulum við vera alveg hreinskilnir," sagði Redknapp við enska fjölmiðla. „Það væri frábært ef Paul Scholes myndi spila með Englandi á EM í sumar. Hann spilar eins og Spánverjarnir - Xavi eða Iniesta. Hann tapar ekki boltanum," bætti hann við.

Redknapp segir einnig að leikmenn eins og Frank Lampard og Steven Gerrard eru lykilmenn fyrir enska landsliðið. „Það má ekki afskrifa Frank. Hann er enn leikmaður í hæsta gæðaflokki. Steven Gerrard er það líka. Við erum með nokkra góða leikmenn á miðjunni."

Scott Parker hefur frábær á tímabilinu með Tottenham og Redknapp var spurður hvort að hann myndi setja fyrirliðabandið á Parker. „Þeir eru nokkrir góðir sem koma til greina. Gerrard er einn þeirra. Scottie gæti sinnt þessu vel en það sama má segja um Steve."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×