Fótbolti

Skosku meistararnir í Rangers á leiðinni í greiðslustöðvun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikica Jelavic, fyrrum framherji Rangers, sem var seldur til Everton á dögunum.
Nikica Jelavic, fyrrum framherji Rangers, sem var seldur til Everton á dögunum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Skosku meistararnir Glasgow Rangers eru í það vondum málum fjárhagslega að félagið hefur nú tilkynnt að það sé á leiðinni í greiðslustöðvun á næstunni. Rangers stendur í málaferlum vegna skattaskulda og það mál spilar lykilhlutverk í slæmri fjárhagsstöðu félagsins.

Glasgow Rangers er þekktasta og sigursælasta félag Skotlands ásamt nágrönnum þeirra í Celtic og varð síðasta vor skoskur meistari þriðja árið í röð og í 54. skiptið frá upphafi sem er heimsmet.

Rangers er fjórum stigum á eftir Celtic eins og staðan er í dag en fari félagið í greiðslustöðvun eins og allt lítur út fyrir þá verða tíu stig dregin af liðinu. Erkifjendurnir í Celtic eiga því meistaratitilinn vísan í ár.

Tapi Rangers málinu gegn skattayfirvöldum í Skotlandi gæti félagið þurft að borga allt að 49 milljónum punda í sekt sem er líklegast það sem er að ýta félaginu fram af brúninni. Það er samt ekki búið að dæma í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×