Fótbolti

Ronaldinho inni en bæði Kaka og Robinho úti í kuldanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ronaldinho fagnar marki með Flamengo.
Ronaldinho fagnar marki með Flamengo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ronaldinho er í landsliðshópi Brasilíu fyrir vináttulandsleik á móti Bosníu í lok mánaðarins en landsliðsþjálfarinn Mano Menezes hefur valið 23 leikmenn fyrir leikinn sem fer fram í Sviss 28. febrúar næstkomandi.

Ronaldinho er valinn þrátt fyrir að hafa ekki leikið alltof vel með Flamengo-liðinu að undanförnu en Menezes hefur hinsvegar ekki pláss fyrir menn eins og Robinho hjá AC Milan og Kaka hjá Real Madrid. Kaka hefur fengið fleiri tækifæri hjá Jose Mourinho að undanförnu en það dugði ekki til.

Þetta verður fyrsti landsleikur Brasilíumanna síðan í október sem Menezes getur valið fullan hóp en í vináttuleikjum við Gabon og Egyptaland í nóvember þá gat hann aðeins valið leikmenn utan Brasilíu þar sem að brasilíska deildin var í fullum gangi.

„Ronaldinho er hluti af þessu verkefni og ég ætla ekki að hætta að velja hann þótt að hann sé að ganga í gegnum erfitt tímabil," sagði Mano Menezes.

Ronaldinho var ekki valinn í hópinn fyrir HM í Suður-Afríku 2010 en kom inn í liðið strax eftir keppnina. Ronaldinho sækist eftir því að fá að vera með á Ólympíuleikunum í London í sumar og ennfremur að fá að spila með liðinu sem tekur þátt í Heimsmeistarakeppninni í Brasilíu árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×