Enski boltinn

Dalglish: Suarez mun taka í hönd Evra

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrice Evra og Luis Suarez í baráttu um boltann.
Patrice Evra og Luis Suarez í baráttu um boltann. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, á von á því að Luis Suarez muni fara eftir settum reglum og taka í hönd Patrice Evra fyrir leik liðsins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Suarez er nýbúinn að taka út átta leikja bann fyrir að vera með kynþáttaníð gagnvart Evra. Suarez og Liverpool voru afar ósátt við úrskurðinn en ákváðu á endanum að sætta sig við niðurstöðuna.

„Það eru margir að velta því fyrir sér hvað muni gerast fyrir leikinn," sagði Dalglish við enska fjölmiðla. „En við höfum rætt við Luis og við vitum að hann mun taka í hönd Evra og annarra leikmanna Manchester United fyrir leikinn."

Það er þó viðbúið að stuðningsmenn United muni láta Suarez heyra það í leiknum, rétt eins og stuðningsmenn Liverpooi gerðu í síðasta mánuði við Evra þegar að United lék á Anfield í enska bikarnum.

Suarez fékk gult spjald fyrir að sparka í Scott Parker, leikmann Tottenham, í sínum fyrsta leik eftir leikbannið nú fyrr í vikunni. Wayne Rooney, leikmaður United, sagði á Twitter-síðu sinni að brotið hefði verðskuldað rautt spjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×