Fótbolti

Gamlar fótboltastjörnur boðnar upp í Indlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Cannavaro.
Fabio Cannavaro. Mynd/Nordic Photos/Getty
Indverjar hafa aldrei gert góða hluti í fótboltanum þrátt fyrir gríðarlegan mannfjölda en nú er verið að koma að stað nýrri fótboltadeild í landinu og er ætlunum að rækta með því fótboltáhuga landsmanna.

Indverjar hafa ákveðið að beita nýstárlegri aðferð til að kynna deildina og rífa upp áhugann á fótboltanum í heimalandinu. Þeir ætla nefnilega að bjóða upp nokkrar heimsfrægar fótboltastjörnur sem hafa samþykkt að taka þátt í þessari sjö vikna deild en hún hefst í febrúarlok.

Leikmennirnir eru Argentínumennirnir Hernan Crespo og Juan Pablo Sorin, Ítalinn Fabio Cannavaro, Frakkinn Robert Pires, Nígeríumaðurinn Jay Jay Okocha og Englendingurinn Robbie Fowler.

Það eru fimm lið í deildinni og þau fá að bjóða í fyrrnefnda leikmenn en auk þess verða fimmtán aðrir erlendir leikmenn, aðallega frá Suður-Ameríku, í boði í þessu sérstaka uppboði.

Félögin koma frá borgunum Kolkata, Barasat, Howrah, Durgapur og Siliguri og verður hvert lið að hafa í það minnsta einn heimsfrægan leikmann innanborðs.

Erlendir þjálfarar munu stýra liðunum og þar á meðal er John Barnes, fyrrum leikmaður Liverpool og enska landsliðsins. Íslendingurinn Teitur Þórðarson mun einnig þjálfa eitt liðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×