Fótbolti

Roberto Carlos ætlar að segja þetta gott í lok ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Carlos
Roberto Carlos Mynd/AFP
Brasilíski bakvörðurinn Roberto Carlos hefur nú gefið það út að hann ætli að leggja skóna á hilluna í lok ársins en kappinn hefur undanfarið spilað með rússneska liðinu Anzhi Makhachkala. Roberto Carlos mun þó ekki hætta afskiptum að fótboltanum því hann mun áfram vinna á bak við tjöldin hjá Anzhi.

Roberto Carlos er orðinn 39 ára gamall og var farinn að spila heima í Brasilíu þegar hann fékk frábært tilboð frá rússneska félaginu. Hann hefur spilað þar síðan í febrúar í fyrra og tók tímabundið við þjálfun liðsins á síðasta tímabili.

„Samningurinn minn við Anzhi rennur út í júní 2013 en ég hef ákveðið að segja þetta gott í desember," sagði Roberto Carlos í viðtali við spænska blaðið Marca.

„Ég er ekki að hætta af því að skrokkurinn er búinn. Ég er að hætta af því að ég hef upplifað allt sem knattspyrnumaður og nú vil ég eyða meiri tíma með fjölskyldunni," sagði Roberto Carlos.

„Ég mun halda áfram að vinna fyrir félagið og verð aðstoðarmaður forsetans Suleiman Kerimov því ég er skuldbundinn honum til æviloka. Hann hefur beðið mig að hjálpa sér við að skipuleggja félagið til næstu tíu ára," sagði Roberto Carlos.

Roberto Carlos hefur spilað fyrir stóra klúbba eins og Palmeiras, Real Madrid og Inter Milan á ferlinum en hann hefur unnið allt á sínum ferli þar á meðal Heimsmeistaratitilinn með Brasilíu árið 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×