Fótbolti

Guðlaugur Victor mögulega á leið til New York Red Bulls

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðlaugur Victor í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Guðlaugur Victor í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
U-21 landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er mögulega að ganga til liðs við New York Red Bulls í bandarísku MLS-deildinni.

Þetta kom fram á Fótbolta.net í kvöld en þar staðfestir Guðlaugur að hann eigi í viðræðum við liðið. Thierry Henry leikur með liðinu sem og Mexíkóinn Rafael Marques, fyrrum leikmaður Barcelona.

Guðlaugur Victor er nú staddur í Osló þar sem íþróttastjóri félagsins er Norðmaðurinn Eric Solér. „Ég er í samningaviðræðum við þá núna. Þetta er komið meira en hálfa leið," sagði hann.

Hann hefur komið víða við á sínum atvinnumannaferli sem hófst með AGF í Danmörku. Þaðan fór hann til Liverpool og svo Hibernian í skosku úrvalsdeildinni en hann var leystur undan samningi sínum þar fyrr í mánuðinum.

Guðlaugur Victor sagði að hans gamli þjálfari hjá AGF vinni hjá Red Bull og að félagið hafi fylgst með honum lengi. Farið var í samningaviðræður eftir að hann varð samningslaus.

„Þetta er það sem mig langar mest og ég vona að þetta fari í gegn. Henry og Rafael Marquez eru í þessu liði, auðvitað er þetta mjög spennandi," sagði Guðlaugur Victor við Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×