Fótbolti

Drogba kom sínum mönnum til bjargar - Manucho með glæsimark

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Didier Drogba skoraði eina mark Fílabeinsstrandarinnar sem marði 1-0 sigur á Súdan í B-riðli Afríkukeppninnar í gær. Í hinum leik riðilsins skoraði Manucho sigurmark Angóla í 2-1 sigri á Búrkína Fasó.

Fílabeinsströndin er líkt og oft áður talin líkleg til afreka í Afríkukeppninni sem fram fer í Gabon og Miðbaugs-Gíneu næstu þrjár vikurnar. Þrátt fyrir að 102 sæti skilji Fílabeinsströndina og Súdan að á styrkleikalista FIFA var aðeins eitt mark sem skildi liðin að þegar upp var staðið. Salomon Kalou, leikmaður Chelsea, sendi fyrir á kollega sinn hjá Lundúnarliðinu og Drogba var ekki í vandræðum með að skalla knöttinn í netið.

Drogba hefur nú skorað í fjórum Afríkukeppnum í röð en keppnin fer fram á tveggja ára fresti. Mark Drogba má sjá hér.

Til marks um sterkt lið Fílabeinsstrandarinnar fagnaði Drogba markinu ákaft með Yaya Toure, leikmanni Manchester City. Gervinho, leikmaður Arsenal, hefði svo getað gulltryggt sigur sinna manna þegar hann komst í gott færi. Markvörður Súdan sá við honum.

Þrátt fyrir að lið Fílabeinsstrandarinnar sé stjörnum prýtt var ekki uppselt á 16 þúsund manna leikvanginn í Malabo í gær. Talið er að hátt miðaverð hafi þar mikið að segja. Rúmar 1.200 krónur kostar á völlinn í riðlakeppninni.

Manucho á skotskónum

Í hinum leik gærdagsins sigraði Angóla lið Búrkína Fasó með tveimur mörkum gegn einu. Manucho, fyrrum liðsmaður Manchester United sem nú spilar í Tyrklandi á láni frá Real Valladolid á Spáni, skoraði sigurmark Angóla með hörkuskoti af löngu færi.

Afríkukeppnin hófst á laugardag með tveimur leikjum í A-riðli. Heimamenn í Miðbaugs-Gíneu unnu óvæntan 1-0 sigur á Líbíu. Þá vann Zambía einnig óvænta 2-1 sigur á Senegal sem þótti líklegt til afreka fyrir keppnina.

Í dag fara fram tveir leikir í C-riðli. Reiknað er með fullu húsi þegar heimamenn í Gabon taka á móti Níger á nýlegum 45 þúsund manna leikvangi í Libreville. Þá mætast Marokkó og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×