Fótbolti

Þjálfari Aberdeen reiknar ekki með Kára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Nordic Photos / Getty Images
Craig Brown, þjálfari Aberdeen, reiknar ekki með því að Kári Árnason muni spila áfram með liðinu eftir núverandi tímabil þar sem Kári hefur hafnað samningstilboði félagsins.

Kári hefur staðið sig mjög vel eftir að hann kom nú í sumar frá Plymouth. Hann skrifaði undir eins árs samning en félagið vill halda honum lengur.

David Winnie, umboðsmaður Kára, sagði við fréttastofu á dögunum að félög í Englandi og Frakklandi hefðu áhuga á Kára.

„Ég veit að Kári hefur hafnað tilboði okkar. Í mínum huga liggur fyrir að hann verði ekki með okkur áfram á næsta tímabili," sagði Brown við fjölmiðla ytra. „Ef hann samþykkir ekki núverandi tilboð er ljóst að hann verður ekki áfram hjá okkur. Ég hef rætt við hann og þó svo að hann sé ánægður hér vill hann fá hærri laun."

„En ég er viss um að félagið muni ekki hækka sitt tilboð því það hefur ekki efni á að borga honum meira. Þetta eru vonbrigði en ég verð að taka þessu og reyna að finna annan leikmann í hans stað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×