Fótbolti

Gabon í átta liða úrslit eftir ótrúlegan sigur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gestgjafarnir frá Gabon tryggðu sér í gær sæti í átta liða úrslitum Afríkukeppninnar í knattspyrnu með mögnuðu 3-2 sigri á Marokkó. Sigurmarkið kom beint úr aukaspyrnu á fimmtu mínútu í viðbótartíma.

Marokkó komust yfir í fyrri hálfleik og leiddu þar til stundarfjórðungur lifði leiks en þá fóru hlutirnir að gerast. Heimamenn skoruðu tvö mörk með skömmu millibili og útlitið gott. Þegar Marokkó jafnaði metin úr vítaspyrn mínútu fyrir leikslok virtist draumurinn um sæti í átta liða úrslitum hins vegar úr sögunni.

Varamaðurinn Bruno Zita Mbanangoye var á öðru máli. Á fimmtu mínútu í viðbótartíma tók hann aukaspyrnu fyrir utan teig og sendi knöttinn efst í markhornið. Stórkostlegt mark og fögnuður um 40 þúsund stuðningsmanna Gabon skiljanlega mikill.

Margir reiknuðu með því að Marokkó færu langt í keppninni en tapið þýðir að þeir eru úr leik. Túnis fer áfram úr C-riðli ásamt Gabon en bæði liðin eru með sex stig að loknum tveimur umferðum.

Tveir leikir fara fram í 2. umferð D-riðils í dag. Botsvana mætir Gíneu og þá eigast Gana og Malí við. Sýnt er frá leikjum í Afríkukeppninni á Eurosport.

Öll mörkin úr leiknum má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×