Lífið

Fengu húfur úr einkasafni Russell Crowe

Vinirnir Ágúst, Sverrir og Þórir fengu mynd af sér og nágranna sínum Russell Crowe í fyrrakvöld.
Vinirnir Ágúst, Sverrir og Þórir fengu mynd af sér og nágranna sínum Russell Crowe í fyrrakvöld. Mynd/Chris Feather
„Ég fékk húfu sem hann var að nota og hún er með rosa mikilli reykingalykt en hann reykir vindla,“ segir hinn tólf ára Sverrir Páll Hjaltested. Hann hitti Hollywood-leikarann Russell Crowe fyrir utan heimili hans að Bjarmalandi í fyrrakvöld og fékk eftir spjall og myndatöku að eiga húfuna sem leikarinn bar. „Á húfunni stendur South Sidney. Það er rugby-lið í Ástralíu en hann er þaðan.“ Með honum í för voru þeir Ágúst Karel Magnússon og Þórir Rafn Þórisson. Þeir fengu einnig húfur sem dóttir Crowe sótti inn í húsið fyrir þá.

„Við vorum fyrir utan húsið sem hann leigir og það kom svartur stór Dogde-bíll og hvítur Land Rover. Þegar bílarnir stoppuðu spurðum við hvar Russell Crowe væri og þá var hann beint fyrir framan okkur og sagði: „I‘m here“.“ Þetta segja vinirnir í kór og eru í skýjunum með tíu mínútna spjallið sem þeir áttu við stjörnuna. „Við töluðum mest um hjól og fengum að taka mynd af honum með símanum,“ segir Ágúst. Auk þess gaf hann þeim oft fimmur og tók í hendurnar á þeim. „Hann gat sagt nöfnin okkar því þau eru svo einföld,“ segir Þórir og bera þeir fram nöfnin sín með enskum hreim.

Vinirnir æfa fótbolta með fimmta flokki hjá Þrótt og búa í hverfinu. Þeir hafa oft séð Crowe við hjólreiðar og höfðu fyrr um daginn bankað upp á. „Við fórum klukkan tólf um hádegið og spurðum hvort við gætum fengið eiginhandaráritun en þá kom konan hans til dyra og sagði að hann væri ekki heima,“ segir Ágúst. Þeir fengu þó ekki eiginhandaráritanir að lokum því þá vantaði penna en húfur úr einkasafni leikarans skáka þeim. -hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.