Lífið

Úr bransanum í listina

Einar Bárðason, athafna- og umboðsmaður , heldur sína fyrstu ljósmyndasýningu í dag.
Einar Bárðason, athafna- og umboðsmaður , heldur sína fyrstu ljósmyndasýningu í dag.
Einar Bárðarson, athafna- og umboðsmaður, opnar sína fyrstu ljósmyndasýningu á Höfðatorgi í dag. Myndirnar sem verða til sýnis voru teknar í sumar þegar Einar var á ferðalagi um landið.



Einar er þekktur fyrir ýmislegt annað en ljósmyndun og er líklega þekktastur sem umboðsmaður Íslands. Hann hefur þó lengi haft áhuga á ljósmyndun en eignaðist ekki almennilega myndavél þar til í fyrra.



"Ég var aldrei í fremstu víglínu hvað tækjabúnað varðar en eignaðist mjög góða vél í fyrra og hef verið að dunda mér við að læra á hana. Ég var duglegur að taka myndir á ferðalagi mínu um landið í sumar og fékk mikið hrós fyrir og ákvað því að stíga út fyrir þægindarammann og láta á slag standa og setja upp sýningu með myndunum," útskýrir Einar.

Á sýningunni eru um tuttugu myndir eftir Einar og lýsir hann þeim sem "þröngum landslagsmyndum". Myndefnið er náttúra Íslands og tekur Einar nærmyndir af mold, vatni, rekavið og öðru er fyrirfinnst í náttúrunni.



"Maður er vanur að keyra hringveginn á 90 kílómetra hraða og góna út í loftið og gleymir því oft að horfa á fegurðina í kringum sig. Það er margt að sjá ef maður bara horfir."

Inntur eftir því hvort hann hafi í hyggju að söðla um og leggja ljósmyndun fyrir sig segir Einar að þó hann hafi gaman af ljósmyndun sé hann enginn ljósmyndari. "Ég kalla mig ekki ljósmyndara, það væri móðgun við aðra. En það gæti vel verið að ég geri meira af þessu ef sýningin leggst vel í fólk. Það er gott og gefandi að spá svona í umhverfi sitt."

Sýningin hefst í dag og stendur til mánaðamóta.

- sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.