Lífið

Ólympíuleikar í orðanotkun

Báðir hafa þeir Þorkell Gunnar og Einar Örn staðið sig með prýði í orðaleik Gunnars. Þorkell Gunnar leiðir með einu stigi en Einar Örn á leik inni. fréttablaðið/ernir
Báðir hafa þeir Þorkell Gunnar og Einar Örn staðið sig með prýði í orðaleik Gunnars. Þorkell Gunnar leiðir með einu stigi en Einar Örn á leik inni. fréttablaðið/ernir
„Þetta eru Ólympíuleikarnir í orðaleik og það eru tveir keppendur í úrslitum, íþróttafréttamennirnir Þorkell Gunnar og Einar Örn, og þeir hafa staðið sig alveg gríðarlega vel,“ segir grínistinn Gunnar Sigurðarson.

Gunnar er með leik í gangi á Twitter-síðu sinni þar sem hann skorar á íþróttafréttamennina til að láta viss orð falla í beinni útsendingu. „Ég lít á þetta sem þjálfun í orðanotkun starfsmanna Ríkisútvarpsins,“ segir Gunnar sem hefur áður verið með sams konar leiki í gangi fyrir fjölmiðlafólk og segir alla hafa hlýtt kalli hingað til. Meðal orða sem þeir Þorkell Gunnar og Einar Örn hafa þurft að láta flakka í beinni útsendingu eru þvagfærasýking, rotþróarhreinsiefni, brandugla og sækýr. „Þeir geta notað orðin að vild en hafa staðið sig frábærlega í að koma þeim inn í setningar,“ segir Gunnar. „Ég hef aldrei orðið uppvís að svona frábærri orðanotkun hjá neinum starfsmanni ríkisútvarps eða sjónvarps. Þeir eiga heiður skilið,“ bætir hann við.

Gunnar fylgir ströngum reglum þegar hann velur orðin og segir þau aldrei vera íþyngjandi eða niðurlægjandi fyrir neinn. Strákarnir fá bónusstig fyrir gott samhengi í setningu og svo eru erfiðleikastig á orðum og sum gefa fleiri stig en önnur. Þorkell Gunnar leiðir nú keppnina með eitt stig, 10 á móti 9, en Einar Örn á þó leik til góða. „Það verður spennandi að fá þá heim og veita þeim verðlaun fyrir framúrskarandi frammistöðu,“ segir Gunnar og tilnefnir sjálfan sig til verðlauna Jónasar Hallgrímssonar fyrir verndun á íslenskri tungu. „Það eru Nóbelsverðlaunin sem ég stefni á,“ segir hann. - trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.