Lífið

Langur vinnudagur í Ólympíuþorpinu

Vinnudagarnir eru langir og strangir á meðan á leikunum stendur og vinnur Sif sex daga vikunnar.

"Starfsheiti okkar á Ólympíuleikunum er "Doping Control Officer". Við sjáum um og berum ábyrgð á sýnatökuferlinu frá því að íþróttamaðurinn kemur inn í sýnatökuherbergið og þangað til öll sýni hafa verið innsigluð og pappírar frágengnir. Þetta er því talsvert langt og strangt ferli."

Fyrir setningu Ólympíuleikanna starfaði Sif í Ólympíuþorpinu við lyfjaprófanir íþróttamanna áður en þeir hófu keppni.

"Eftir að leikarnir byrjuðu vinn ég á aðalleikvanginum við lyfjaprófanir á frjálsíþróttafólkinu. Vaktirnar hér eru langar, ýmist frá klukkan níu á morgnana til sex á daginn eða frá sex til tvö um nóttu, sex daga vikunnar."

Hópurinn frá Íslandi mun meðal annars lyfjaprófa keppendur í handbolta, frjálsum íþróttum, sundi, körfubolta og sundknattleik. Stór hópur fólks frá öllum heimshornum vinnur við lyfjaeftirlit á Ólympíuleikunum enda hafa skipuleggjendur leikanna gefið út að fleiri lyfjapróf verði gerð á leikunum í ár en nokkru sinni fyrr.

Sif segir að ein af ástæðunum fyrir því að London fékk leikana á sínum tíma hafi einmitt verið öflugra lyfjaeftirlit.

"Hér vinnur svakalega stór hópur frá öllum heimsálfum og er Alþjóðaólympíusambandið mjög ánægt með þessa fjölbreyttu flóru starfsmanna."

Íslenski hópurinn býr, eins og aðrir sem starfa við lyfjaprófanir, á háskólagörðum miðsvæðis í London og ferðast þaðan á keppnisstaðina.

Fyrstu dagarnir í Ólympíuþorpinu voru rólegir að sögn Sifjar og segir hún varla sálu hafa verið á ferli. Síðustu dagana fyrir setningu leikanna hafi hins vegar allt fyllst af keppendum og þjálfurum.

"Ferðamannastraumurinn jókst líka mikið hér í borginni síðustu dagana fyrir setninguna. Allar götur, lestarstöðvar og miðbærinn er fullur af fólki og allt skreytt fánum. Mér gafst meðal annars kostur á að sjá lokaæfinguna fyrir setningarhátíðina. Þar var mjög mikill mannfjöldi þannig að ég get rétt ímyndað mér hvernig þetta hefur verið eftir sjálfa athöfnina."

Fyrir leikana átti Sif ekki von á að geta fylgst með nokkurri íþróttagrein enda þurfa starfsmenn að borga fullt verð eins og aðrir auk þess sem uppselt var á margar keppnir.

"Ég fékk þó miða á leik Íslands og Argentínu í handbolta. Ef það kemur síðan óvæntur frítími á meðan við erum að vinna megum við fara og horfa á. Vonandi sé ég þá eitthvað af keppninni í frjálsum íþróttum. Síðan mun ég fylgjast með maraþonhlaupinu á sunnudaginn sem er lokadagur hátíðarinnar. Þar keppir Kári Steinn Karlsson á götum borgarinnar en þá hef ég einmitt lokið störfum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.