Enski boltinn

Stíflan brast hjá Chelsea - vann Ipswich 7-0

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Sturridge fagnar öðru marka sinna í dag.
Daniel Sturridge fagnar öðru marka sinna í dag. Nordic Photos / Getty Images

Chelsea vann kærkominn stórsigur á B-deildarliði Ipswich í ensku bikarkeppninni í dag, 7-0.

Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og eru þar dottnir niður í fimmta sætið.

Chelsea varð á síðustu leiktíð bæði enskur meistari sem og bikarmeistari og á þrátt fyrir allt enn möguleika á að verja báða titla.

Chelsea hafði 3-0 forystu í hálfleik í dag þökk sé Salomon Kalou, Daniel Sturridge og sjálfsmarki Carlos Edwards.

Nicolas Anelka kom liðinu í 4-0 snemma í síðari hálfleik og Sturridge skoraði svo sitt annað mark á 52. mínútu. Frank Lampard skoraði svo tvö mörk með mínútu millibili undir lok leiksins og niðurstaðan því 7-0 sigur.

Roy Keane var rekinn sem stjóri Ipswich fyrir fáeinum dögum en liðið er í fallbaráttu í ensku B-deildinni.

Chelsea mætir næst Everton í ensku bikarkeppninni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×