Innlent

Með 90 gyðinga á lista og horfa til sýnagógu

Berel Pewzner og Mendy Tzfasman eru hæstánægðir með árangurinn síðan í vor. Þeir hafa farið í sams konar leiðangra til annarra landa.Mynd/úr einkasafni
Berel Pewzner og Mendy Tzfasman eru hæstánægðir með árangurinn síðan í vor. Þeir hafa farið í sams konar leiðangra til annarra landa.Mynd/úr einkasafni
Leit tveggja bandarískra rabbínanema að gyðingum á Íslandi hefur borið svo góðan ávöxt að þeir sjá fyrir sér að fljótlega þurfi að koma hér upp samkomuhúsi fyrir íslenska gyðinga og á endanum sýnagógu. Þeir telja leitina hafa gengið vonum framar.

„Við erum núna komnir með lista yfir níutíu gyðinga sem búa á Íslandi. Við erum mjög ánægðir með árangurinn af leitinni,“ segir Berel Pewzner. „Þeir eru eflaust fleiri og leitin stendur enn.“

Fréttablaðið greindi frá því í apríl síðastliðnum að Pewzner hefði komið til landsins í tveggja vikna heimsókn ásamt félaga sínum, Mendy Tzfasman, í því skyni að koma hér upp samfélagi gyðinga. Þeir höfðu þá farið í sams konar ferðir til annarra landa.

Félagarnir gengu um götur bæjarins, kíktu í verslanir og spurðu fólk hvort það vissi um gyðinga búsetta hérlendis. Afrakstur fyrstu heimsóknarinnar var listi yfir fjörutíu manns.

„Við báðum allt þetta fólk um að benda okkur á fleiri einstaklinga, við leituðum áfram með hjálp internetsins og greinin í Fréttablaðinu hjálpaði mikið til – það var mjög margt fólk sem hafði samband við okkur í kjölfar þess að hún birtist,“ segir Pewzner. „Þannig stækkaði hópurinn hægt og bítandi.“

Pewzner hefur verið staddur hér á landi undanfarnar vikur og í septemberlok hélt hann meðal annars bænastundir fyrir samfélag gyðinga hérlendis í tilefni af nýárshátíð gyðinga, Rosh Hashanah. Þá hefur einnig verið blásið til hátíðarmálsverða af öðrum tilefnum og fjölda smærri uppákoma.

Þeir Pewzner og Tzfasman hafa einnig staðið fyrir fræðslu. „Við kennum Tóra [helsta helgirit gyðinga], Talmúð [hina trúarlegu lögbók] og kabbalah og hvernig boðskapur ritanna tengist daglegu lífi okkar. Þá skoðum við atburði líðandi stundar út frá sjónarhorni gyðinga,“ segir Pewzner. Þeir kenni einkum fullorðnum gyðingum en einnig slæðingi af börnum.

„Staða gyðingdómsins á Íslandi er mjög góð og við horfum björtum augum til framtíðar,“ segir Pewzner. „Við teljum að það muni óhjákvæmilega þurfa að reisa samkomuhús og sýnagógu í Reykjavík,“ bætir hann við.

stigur@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×