Lífið

Klovn-tvíeykið hneykslar enn

Casper Christensen hikaði ekki við að gera grín að samlífi sínu og nýju kærustunnar þrátt fyrir að tengdapabbinn væri í salnum.Fréttablaðið/VAlli
Casper Christensen hikaði ekki við að gera grín að samlífi sínu og nýju kærustunnar þrátt fyrir að tengdapabbinn væri í salnum.Fréttablaðið/VAlli
Casper Christensen og Frank Hvam frumsýndu á fimmtudagskvöld nýja uppistandssýningu sína. Klovn-tvíeykið hefur verið duglegt að lýsa því yfir í viðtölum að engum verði hlíft, allt verði látið flakka.

Og þeir stóðu svo sannarlega við stóru orðin. Í það minnsta Casper sem talaði digurbarkalega um samlíf sitt og nýju kærustunnar, Isabel Friis-Mikkelsen, og virtist standa á sama um að stúlkan og faðir hennar, Jarlinn, væru meðal gesta í salnum. Jarlinn er reyndar góðvinur þeirra félaga. Fréttablaðið mun ekki hafa eftir þau orð sem Casper viðhafði um líkamlegt samneyti þeirra tveggja en Casper var borubrattur þegar vefútgáfa danska blaðsins BT spurði hann út í brandarann. „Maður verður að vera algjörlega ónæmur þegar maður gerir grín,“ segir Casper og bætti því við að hann hlakkaði til að hitta góðvin sinn Jarlinn. „Við vorum í sambandi fyrir sýninguna og hann óskaði mér góðs gengis.“

Jarlinn virðist hafa haft húmor fyrir groddaralegum athugasemdum Caspers því vel fór á með þeim eftir sýninguna. „Hann veit alveg hvernig þessi leikur er og hann hló sig máttlausan. Hann hefur húmor, sem betur fer.“ Casper var heldur ekki í vafa um að nýja frúin hefði hlegið. „Hún veit alveg hvernig ég er. Ég var heldur ekki að niðurlægja hana, ég nefndi bara nokkrar fallegar hliðar á sambandi okkar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.