Lífið

Kom þægilega á óvart

Robert De Niro var mikill fagmaður á tökustað og var gríðarlega vel undirbúinn. Hann nýtti hverja mínútu til að lesa eða æfa atriði að sögn Sigurjóns Sighvatssonar, framleiðanda Killer Elite sem verður frumsýnd um helgina.
fréttablaðið/vilhelm
Robert De Niro var mikill fagmaður á tökustað og var gríðarlega vel undirbúinn. Hann nýtti hverja mínútu til að lesa eða æfa atriði að sögn Sigurjóns Sighvatssonar, framleiðanda Killer Elite sem verður frumsýnd um helgina. fréttablaðið/vilhelm
Sigurjón Sighvatsson frumsýndi á þriðjudagskvöld nýjustu kvikmynd sína, The Killer Elite. Myndin skartar Jason Statham og Clive Owen í aðalhlutverkum auk goðsagnarinnar Roberts De Niro sem Sigurjón segir vera fagmann fram í fingurgóma.

The Killer Elite er dýrasta óháða kvikmyndin sem framleidd var í Bandaríkjunum í ár.

Myndin er byggð á bók sir Ranulphs Fiennes, The Feather Men, sem kom út 1990 og olli töluverðu fjaðrafoki í Bretlandi. Fram að því höfðu bresk stjórnvöld aldrei viljað staðfesta tilvist hinna svokölluðu SAS-sveita sem leika lykilhlutverk í Killer Elite. Myndin segir frá leigumorðingjanum Danny sem ákveður að hætta störfum og koma sér fyrir í ástralskri sveit. Hann er hins vegar dreginn aftur inn í hringiðuna þegar samstarfsfélaga hans er rænt af olíufursta sem þyrstir í hefnd en þrír synir hans voru drepnir af liðsmönnum SAS-sveitanna.

Það vakti mikla athygli þegar Fréttablaðið greindi frá því að Sigurjón hefði fengið Robert De Niro til að leika reynsluboltann Hunter í Killer Elite. Ekki þarf að hafa mörg orð um feril De Niro, orðurnar fyrir afrekin á hvíta tjaldinu eru ansi margar og hann er almennt talinn vera einn fremsti kvikmyndaleikari sinnar kynslóðar. „Hann kom þægilega á óvart. Maður hafði heyrt sögur af því að hann væri erfiður í samstarfi en það var alls ekki raunin. Hann tengdi mjög vel við fólkið, var verulega vel undirbúinn og hann var líka ánægður með hvernig hann leit út í myndinni, það er ágætt að vera 68 ára og halda sér svona ungum við hliðina á Clive Owen og Jason Statham, einni helstu hasarmyndastjörnu nútímans.“

Að sögn Sigurjóns er De Niro ekki maður margra orða. „Hann er atvinnumaður og þegar maður er búinn að vera svona lengi í þessum bransa eins og hann þá gera menn ekki hlutina nema gera þá vel. Hann setti ekki miklar kröfur á tökustað en nýtti hverja mínútu. Ef hann var ekki í tökum þá var hann að lesa bækur um leigumorðingja og hegðun þeirra eða um þetta tímabil.“

Sigurjón og De Niro virðast hafa náð ágætlega saman því framleiðandinn á viðræðum við leikarann um að leika í annarri mynd undir stjórn Gary McKendry, þeim sama og leikstýrði Killer Elite. „Þeir náðu vel saman og það skiptir miklu máli. McKendry var auðvitað mjög stressaður þegar hann talaði við De Niro í fyrsta skipti og þurfti að svara þrjátíu til fjörutíu spurningum. De Niro var hins vegar mjög ánægður með hann.“

Myndin heitir Joseph and the Girl og er endurgerð á franskri glæpamynd af svokallaðri heist-gerð. Þetta er ekki eina samstarfið sem hefur komið út úr Killer Elite því Sigurjón og Clive Owen hafa einnig áhuga á að gera mynd saman.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.