Lífið

Prinspóló fann enga verksmiðju

Svavar Pétur og félagar í Prinspóló leituðu að Prins Póló-verksmiðju í Póllandi en fundu enga.fréttablaðið/valli
Svavar Pétur og félagar í Prinspóló leituðu að Prins Póló-verksmiðju í Póllandi en fundu enga.fréttablaðið/valli
„Við leituðum að verksmiðjunni en komumst að því að hún er ekki til,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, forsprakki Prins Póló.

Hljómsveitin er nýkomin heim úr sinni fyrstu tónleikaferð til Póllands. Um hálfgerða pílagrímsför var að ræða enda er hljómsveitin nefnd eftir pólska súkkulaðikexinu vinsæla. „Ásbjörn Ólafsson [sem flytur inn Prins Póló] benti okkur á verksmiðju í Suður- Póllandi. Við reyndum að grafa hana upp en hún er ekki lengur til sú verksmiðja. Það vissi enginn hvar hún var,“ segir Svavar Pétur. „Mig grunar að Svisslendingar séu með í ráðum. Ég held að þeir séu búnir að taka yfir þennan súkkulaðiheim.“

Að sögn Svavars Péturs gekk tónleikaferðin um Pólland vonum framar. „Það var búið að byggja upp mikla spennu í kringum þessa íslensku útgáfu af Prins Póló. Það mætti fullt af fólki á alla tónleikana og þetta var geðveikt stuð. Áhorfendur voru dálítið í því að lauma að okkur súkkulaðistykkjum á tónleikum. Við fórum út með fulla ferðatösku af söluvarningi og komum til baka með fulla tösku af súkkulaði.“

Fram undan hjá Prins Póló er tónleikaferðin Partíþokan sem hefst á Græna hattinum 22. október. Með í för verða FM Belfast, Borko og Sin Fang. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.