Lífið

Ungir Íslendingar njóta lífsins í Kaupmannahöfn

Davíð Örn Símonarson, 21 árs Íslendingur, er búsettur í Kaupmannahöfn í sumar. Hann segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á Íslendingunum í Kaupmannahöfn undanfarin sumur.
Davíð Örn Símonarson, 21 árs Íslendingur, er búsettur í Kaupmannahöfn í sumar. Hann segir að gríðarleg fjölgun hafi orðið á Íslendingunum í Kaupmannahöfn undanfarin sumur.
Kaupmannahöfn hefur alltaf heillað unga Íslendinga og sumarið í ár er engin undantekin því íslensk ungmenni hafa fjölmennt til gamla höfuðstaðarins.

„Við vorum ekkert mjög mörg hér fyrsta sumarið, en Íslendingunum hefur fjölgað rosalega í ár,“ segir Davíð Örn Símonarson, 21 árs gamall Íslendingur sem búsettur er í Kaupmannahöfn í sumar. Mikill fjöldi íslenskra ungmenna hefur lagt land undir fót og sest að í Kóngsins Kaupmannahöfn yfir sumarið og Davíð segir ástæðuna einfalda. „Við fáum borgað í dönskum krónum, svo öll launin okkar tvöfaldast í raun og veru út af genginu.

Við fáum hörkulaun fyrir litla vinnu,“ segir Davíð, sem vinnur við skúringar í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn. Þar er vinnutíminn frá klukkan sex á morgnana og er Davíð oft kominn heim um ellefu, fimm tímum síðar.

„Um leið og maður klárar vinnuna er allur dagurinn fram undan, svo þetta er í raun og veru eins og að vera í launuðu sumarfríi.“

Davíð segir erfitt að áætla hversu margir Íslendingar séu í borginni í sumar, þar sem einhverjir eru í námi og aðrir búa í borginni allt árið um kring. „Við erum svona um og yfir fimmtán sem vinnum í Ráðhúsinu, og það er bara einn vinnustaður af fjölmörgum,“ segir Davíð, en þetta er þriðja sumarið hans í Kaupmannahöfn.

Kristján Egill Karlsson er framkvæmdastjóri á Íslendingabarnum Jolene í Kaupmannahöfn. Hann segir erfitt að meta fjölgunina sem á sér stað yfir sumartímann, en heldur þó að flestir sem komi til Kaupmannahafnar séu einmitt þeir sem eru að leita sér að sumarvinnu. Hann segir Íslendingana jafnframt mjög skemmtanaglaða.

„Það er stór hópur af Íslendingum sem eru fastakúnnar hér á Jolene. Aðal Íslendingaholan hér í Kaupmannahöfn myndi ég þó segja að væri skemmtistaðurinn Blasen. Annars er allt morandi af Íslendingum hérna,“ segir Kristján Egill.- ka






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.