Lífið

Samdi lag við sálm Sigurbjörns

Toggi frumflytur lag við sálminn Hjá Guði eftir Sigurbjörn Einarsson í Lindakirkju 30. júní.
Toggi frumflytur lag við sálminn Hjá Guði eftir Sigurbjörn Einarsson í Lindakirkju 30. júní.
Pétur Ben, Toggi, Svavar Knútur og Matthías Baldursson ætla að frumflytja eigin lög við sálma Sigurbjörns Einarssonar á tónleikum í Lindakirkju 30. júní. Tónleikarnir verða haldnir í tilefni þess að biskupinn fyrrverandi hefði orðið 100 ára þennan sama dag.

„Guðni Már prestur í Lindakirkju er gamall vinnufélagi minn og kunningi. Ég hef alltaf haldið svolítið upp á hann og hann tékkaði hvort ég væri til í þetta,“ segir Toggi, sem var upptekinn við að reyta arfa þegar Fréttablaðið hafði samband, enda eigandi garðyrkjufyrirtækis. „Það er gaman að prófa eitthvað annað og þurfa ekki að eyða tíma í textagerð. Ég er í smá biðstöðu með mína tónlist. Ég er eiginlega búinn með plötu en er ekki að fara að gefa hana út strax þannig að það er fínt að hafa eitthvað annað að dunda sér við,“ bætir hann við.

Lagið er við sálminn Hjá Guði og var Toggi, sem samdi hið vinsæla Þú komst við hjartað í mér, ekki lengi að hrista það fram úr erminni. „Ég samdi það bara um kvöldið og tók það upp á símann minn,“ segir hann. „Ég er ekkert trúaður sjálfur en ekkert öfga vantrúaður heldur. Ég er meira leitandi. En mér finnst lög við sálma mjög flott.“

Á meðal annarra sem koma fram í Lindakirkju eru Ellen Kristjánsdóttir, Regína Ósk, Erna Kirstin Blöndal og Gospeltónar. Miðaverð er 2.000 krónur og hefst miðasala í Kirkjuhúsinu 27. júní kl. 10. Jafnframt verður hægt að kaupa miða í Lindakirkju 28. til 30. júní. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.