Lífið

Prófaður sem Jeff Buckley

Alexander Briem var beðinn um að senda inn myndbandsprufu af sér í hlutverki Jeff Buckley. Til stendur að gera kvikmynd um tónlistarmanninn en meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við hlutverkið eru Robert Pattinson og James Franco.
Alexander Briem var beðinn um að senda inn myndbandsprufu af sér í hlutverki Jeff Buckley. Til stendur að gera kvikmynd um tónlistarmanninn en meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við hlutverkið eru Robert Pattinson og James Franco. Fréttablaðið/Anton Brink
Alexander Briem, stjarnan úr Gauragangi, var beðinn um að senda inn myndbandsprufu fyrir hlutverk Jeff Buckley samkvæmt heimildum Fréttablaðsins en til stendur að gera kvikmynd um bandaríska tónlistarmanninn. Vera Sölvadóttir leikstýrði prufunni og lítill hópur fólks kom að gerð hennar en mikil leynd hefur hvílt yfir verkefninu. Hvorki Alexander né móðir hans, útvarpskonan Sigríður Pétursdóttir, vildu tjá sig um málið við Fréttablaðið.

Alexander fékk frábæra dóma fyrir frammistöðu sína sem Ormur Óðinsson í kvikmyndinni Gauragangur. Alexander hefur aldrei farið leynt með þann draum sinn um að verða leikari á stóra sviðinu og er þar að auki mikill Buckley-aðdáandi. Til að mynda komst Fréttablaðið yfir myndband á vefsíðunni Vimeo.com þar sem Alexander syngur lag eftir Buckley á útskriftartónleikum. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst fékk Alexander sendar tvær senur úr myndinni og fyrirmæli um að leika lag á gítar og syngja í annarri senu. Það mátti þó ekki vera Halleluja, þekktasti slagari tónlistarmannsins. Tökurnar fóru fram í síðustu viku og voru sendar út til Bandaríkjanna í þessari viku. Ekki liggur fyrir hvenær svör berast.

Jeff Buckley var mörgum harmdauði þegar hann lést langt fyrir aldur fram þann 29.maí 1997. Hann drukknaði í Wolf River-höfninni við Mississippi-fljótið en hann var þá að vinna að nýrri plötu. Buckley tókst aðeins að gefa út eina plötu, Grace, sem hlaut einróma lof gagnrýnenda og er enn í hávegum höfð.

Kvikmynd um tónlistarmanninn hefur verið lengi í bígerð og Twilight-leikarinn Robert Pattinson var nýlega orðaður við hlutverkið. Þá hefur James Franco, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna í ár fyrir leik sinn í 127 hours, einnig verið nefndur sem hugsanlegur möguleiki.-freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.