Lífið

Dettifoss í Hollywood-mynd

Mikilfenglegar náttúrusenur frá Íslandi birtast í nýjust mynd leikstjóransTerrence Malick, Tree of Life.
Mikilfenglegar náttúrusenur frá Íslandi birtast í nýjust mynd leikstjóransTerrence Malick, Tree of Life.
Stórbrotnar náttúrusenur úr íslensku landslagi birtast í kvikmyndinni Tree of Life eftir bandaríska verðlaunaleikstjórann Terrence Malick. Má meðal annars sjá stórfenglegar myndir af Dettifossi og Námaskarði.

Myndin fékk gullpálmann á Cannes í lok maí og skartar Brad Pitt og Sean Penn í aðalhlutverkum. Tökurnar hér á landi stóðu yfir í þrjár vikur fyrir tveimur árum en Malick ku vera heillaður af landinu.

„Myndin er eiginlega tvíþætt, annars vegar hefðbundin mynd með söguþræði og hins vegar náttúruskot sem voru öll tekin á IMAX 79mm,“ segir Einar Sveinn Þórðarson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus, sem var Malick innan handar hér á landi. „Þetta var frekar lítill tökuhópur og við fórum á mjög erfiða staði úti um allt, notuðum þyrlu og krana, ferðuðumst upp á hálendið og tókum upp á stöðum sem fólk sér ekki vanalega frá Íslandi.“

Til stóð að Brad Pitt kæmi til landsins út af tökunum en hætt var við það. Einar Sveinn fékk hins vegar að sitja með Malick inni í stúdíó í Los Angeles þegar verið var að klippa myndina. „Vonandi kemur þessu náttúrumynd sem skeytt er inn í myndina út í séreintaki því þetta voru ansi magnaðar tökur.“

Malick hefur orð á sér fyrir að vera sérlundaður, hann hefur aðeins gert sjö myndir á löngum ferli en þær þykja vandaðar og eru í hávegum hafðar. Einar Sveinn segir leikstjórann hins vegar vera ákaflega venjulegan, hann vilji bara fá að hafa sitt einkalíf í friði. „Hann er mjög venjulegur, lærður heimspekingur og þessi mynd ber keim af því.“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.