Enski boltinn

Nóg að ræða á kaffistofunum eftir sigur Man Utd á Liverpool

Elvar Geir Magnússon skrifar

Kenny Dalglish fékk ekki þá byrjun sem hann óskaði þegar Manchester United vann Liverpool 1-0 í enska bikarnum í dag. Þrátt fyrir að vera einum fleiri stærstan hluta leiksins tókst heimamönnum aðeins að skora eitt mark en eru þó komnir áfram.

Dalglish fékk martraðarbyrjun því Ryan Giggs kom United yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik þegar hann skoraði úr vítaspyrnu. Afar umdeildur dómur hjá Howard Webb sem taldi Daniel Agger hafa brotið á hinum búlgarska Dimitar Berbatov. Það var snerting en Berbatov hefði vel getað staðið í lappirnar. Hann ákvað þó að láta sig detta og uppskar víti fyrir vikið. Leikmenn Liverpool mótmæltu og það skiljanlega.

Áfall fyrir Liverpool en þegar liðið virtist vera að ná völdunum á miðjunni kom annað áfall á 32. mínútu. Steven Gerrard fór í verulega heimskulega tæklingu gegn Michael Carrick, með báðar lappir á lofti. Óskiljanleg ákvörðun hjá Gerrard sem fékk réttilega rautt spjald frá Webb. Fyrirliði Liverpool á leið í þriggja leikja bann.

Nemanja Vidic á við smávægileg meiðsli að stríða og var ekki með United í dag en Jonny Evans leysti hann af hólmi. Evans var nálægt því að skora annað mark heimamanna rétt fyrir hálfleikinn en skalli hans fór þá í stöngina.

Liverpool gekk bölvanlega að skapa sér færi einum færri á meðan mótherjarnir áttu nokkrar stórhættulegar sóknir. Sóknarlota United þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir minnti á kúluspil og með hreinum ólíkindum að boltinn endaði ekki í netinu.

Þegar stundarfjórðungur var eftir gerði Sir Alex Ferguson skiptingu og inn kom fyrrum Liverpool-maðurinn Michael Owen við litla hrifningu áhorfenda á bandi gestaliðsins. Owen náði að sýna lipur tilþrif á lokamínútunum.

United náði ekki að nýta sér liðsmuninn til að skora annað mark en þess þurfti ekki. Liðið er komið áfram eftir þetta mark frá Giggs en hann átti stórleik í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×