Innlent

Talsmaður neytenda býður fram aðstoð við hópmálssókn

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Talsmaður neytenda telur að fólk með lánsveð gæti fengið því hnekkt fyrir dómi að það uppfylli ekki skilyrði 110 prósenta leiðarinnar. Hann býður fram krafta sína við að aðstoða lögmenn og þennan hóp til að fara í hópmálsókn.

Fréttastofa ræddi við liðlega sjötugan föður í gær sem er afar ósáttur við að sonur hans fái ekki skuldabyrði sína lækkaða niður í 110% vegna þess að hann fékk lánað veð í íbúð foreldra sinna. Faðirinn kærði niðurstöðu Arionbanka til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og krafðist þess að bankinn yrði skikkaður til að flytja veðið af íbúð foreldranna á efri hæðinni - niður í kjallaraíbúð sonarins, svo hann uppfyllti 110% leiðina. Kröfum hans var hafnað - og beiðni um endurupptöku málsins var síðan hafnað í vikunni.

Faðirinn kvaðst vilja fá þessu ranglæti hnekkt fyrir dómstólum. Fréttastofa ræddi við talsmann neytenda í dag til að kanna hvort lagagrundvöllur væri fyrir slíkri málsókn.

„Já það er ekki útilokað að þau geti beitt fyrir sig 36. grein samningalaganna," segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. „Þar er ákvæði sem að heimilar að víkja til hliðar ósanngjörnum samningsskilmálum meðal annars vegna atvika sem síðar komu til," útskýrir Gísli svo.

Gísli segir að túlka megi ákvörðun stjórnvalda og lánastofnana um að fara í 110% leiðina, sem atvik sem síðar kom til.

„þá er ekki útilokað að menn geti reynt nýtt úrræði og stofnað hópmálsóknarfélag til þess að fara saman í mál, til þess að hver og einn þurfi ekki fara í mál, heldur geti þeir með aðstoð lögmanns stofnað félag og gert þetta," segir hann og bætir við að hann sé tilbúinn að aðstoða við slíka málssókn sé eftir því leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×