Innlent

Hlerunarmenn kærðir fyrir tveimur árum síðan

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Tveir starfsmenn annars vegar Vodafone, og hins vegar móðurfélags Símans, eru grunaðir um að hafa lekið því til sakborninga að símar þeirra væru hleraðir, samkvæmt heimildum fréttastofu. Hvorugu fyrirtækinu er kunnugt um kærurnar en segja að þau séu sjálf ekki til rannsóknar.

Fréttablaðið sagði frá því í morgun að starfsmenn tveggja símafyrirtækja væru grunaðir um að hafa lekið þessum upplýsingum í sakborninga, og að annar þeirra hefði verið háttsettur starfsmaður Skipta sem er móðurfélag Símans. Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 er hinn einstaklingurinn starfsmaður Vodafone.

Málið er háalvarlegt enda eru starfsmenn símafyrirtækja bundnir þagnarskyldu lögum samkvæmt, og ljóst að hleranir eru gagnslitlar viti sakborningar af þeim.

Heimildir fréttastofu herma að alllangt sé síðan embætti sérstaks saksóknara kærði þessa tvo einstaklinga, upp undir tvö ár, en að rannsókn lögreglu hafi verið sett á ís - að beiðni sérstaks saksóknara, að líkindum til að skaða ekki rannsókn meintra fjármálabrota.

Fréttastofa ræddi við upplýsingafulltrúa Símans og Vodafone í dag. Bæði komu af fjöllum og eftir að hafa grennslast fyrir um málin hjá lögreglu var þeim tjáð að fyrirtæki þeirra væru ekki til rannsóknar og því fengju þau engar upplýsingar um málin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×