Innlent

Skuldarahjálp alþingis gagnslaus að mati dómstóla

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Dómstóll hefur nú tvívegis úrskurðað að lagaákvæði sem átti að hjálpa skuldurum gengislána - sé gagnslaust. Sýnir að björgunarlínan sem stjórnvöld ætluðu að kasta út til skuldara er ekki að virka, segir lögmaður Rafns Einarssonar, húsasmíða- og málarameistara, sem krafðist þess að nauðungarsala á húsi í hans eigu yrði endurupptekin. Héraðsdómur Reykjaness hafnaði kröfunni í dag.

Málið snýst um hús við Dimmuhvarf 7 við Elliðavatn sem Rafn keypti árið 2007, gerði upp og setti á sölu undir lok sama árs. Hann tók tvö gengislán út á húsið til að fjármagna framkvæmdirnar sem voru í upphafi 23 milljónir króna en fóru hæst í 72 milljónir með áföllnum kostnaði vegna vanskila.

Húsið var boðið upp og selt á nauðungarsölu í maí á þessu ári, löngu eftir að ámóta lán höfðu verið dæmd ólögmæt. Alþingi setti inn bráðabirgðaákvæði í vaxtalög um síðustu áramót til að bjarga fólki sem lent hafði í gjaldþroti eða á nauðungarsölu vegna ólögmætra gengislána, Rafn krafðist endurupptöku á nauðungarsölu á grundvelli þess ákvæðis, sem hljóðaði svo:

„Skuldara er jafnframt heimilt að óska eftir endurupptöku fullnustugerða hafi slíkar gerðir farið fram á grundvelli lánssamninga sem höfðu að geyma ólögmæt ákvæði um gengistryggingu."

Kröfu Rafns var hafnað í dag. „Meðal annars á þeim grundvelli að lagabókstafurinn frá alþingi væri óskýr," segir Björgvin Halldór Björnsson, lögmaður Rafns. „Þannig að þessi björgunarlína sem að alþingi virðist í lok síðasta árs vera að kasta til skuldaranna, hún er ekki að virka." Hann telur lagasetninguna vanhugsaða, sem sé miður því ákvæðið sé þarft og margir lent í gjaldþroti eða á nauðungaruppboði vegna gengislána en fái ekki endurupptöku vegna þessa ákvæðis.

Rafn segir þetta lagaákvæði hafa platað sig út í dýr málaferli. Hann hafi eytt miklum peningum og tíma í málaferli á grundvelli laga sem dómarar blási bara út af borðinu.

Nú hafa tveir úrskurðir fallið um að lagaákvæðið sé óskýrt - og gagnist því ekki skuldurum eins og til var ætlast. Mánuður er síðan héraðsdómur hafnaði kröfu gjaldþrota konu á sömu forsendum. Rafn segir úrskurðinn í dag hafa mikil áhrif á sig og sitt starf, enda hafi hann auk þess tekið lán á heimili sitt til fjármagna framkvæmdirnar við Dimmuhvarf, sem átti að vera tímabundið þar til veðrými skapaðist við Dimmuhvarf. Það hvíli hins vegar enn á heimili hans. „Heimili mitt liggur undir bankanum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×