Enski boltinn

Chicharito: Þarf að leggja mikið á mig til að verða eins og Solskjær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Hernandez skorar hér sigurmarkið sitt í gær.
Javier Hernandez skorar hér sigurmarkið sitt í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Javier Hernandez, eða Chicharito eins og hann er kallaður, tryggði Manchester United 2-1 sigur á West Brom í gær með sínu áttunda marki á tímabilinu. Hernandez kom þá inn á sem varamaður fyrir Dimitar Berbatov og skoraði sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu Wayne Rooney.

Hernandez hefur verið líkt við Norðmanninn Ole Gunnar Solskjaer og svona innkoma eins og í gær ýtir aðeins undir slíkan samanburð. Solskjaer skoraði 28 mörk á sínum ferli hjá United eftir að hafa komið inn á sem varamaður sem er það mesta í sögu félagsins.

Hernandez segist sjálfur eiga langt í land til þess að geta verið borinn saman við Ole Gunnar Solskjaer. „Það er gaman að heyra slíkan samanburð og það hvetur mig áfram. Ég þarf að leggja mikið á mig til að verða eins og Solskjær," sagði Hernandez.

Það er margt sem minnir menn á Solskjær þegar þeir fylgjast með mexíkanska framherjanum. Hann lítur barnslega út, hann var keyptur nánast óþekktur til United og hann er náttúrulegur markaskorari sem kann að afgreiða boltann í markið.

Javier Hernandez fagnar marki sínu í gær.Mynd/Nordic Photos/Getty
Hernandez hefur ekki fengið mikið að spila í síðustu leikjum eftir að Wayne Rooney snéri til baka eftir meiðslin enda hefur Dimitar Berbatov farið á kostum í síðustu leikjum. Hann sannað þó mikilvægi sitt í gær.

„Þetta hafa verið öðruvísi jól en ég er mjög ánægður. Þetta hefur verið bestu jólin mín, ég er með allri fjölskyldunni og er að spila fyrir Manchester United," sagði Hernandez og kvartaði ekki mikið að hafa aðeins fengið að spila í 38 mínútur yfir hátíðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×