Enski boltinn

Mikið tap hjá Glazer-fjölskyldunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Avram Glazer, stjórnarformaður Manchester United.
Avram Glazer, stjórnarformaður Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Red Football Joint Venture, eignarhaldsfélagið sem á Manchester United og er í eigu Glazer-fjölskyldunnar, tapaði háum fjárhæðum á síðasta rekstrarári.

Tapið nemur alls 109 milljónum punda eða meira en 20 milljörðum króna. Það kemur fyrst og fremst til vegna endurskipulagningar í skuldamálum félagsins og lítilla tekna af sölu leikmanna Manchester United.

Í fyrra skilaði félagið hagnaði upp á 21 milljón punda sem mátti fyrst og fremst þakka sölunni á Cristiano Ronaldo til Real Madrid fyrir 80 milljónir punda.

Í október síðastliðnum var tilkynnt að Manchester United sjálft hefði tapað 83,6 milljónum á síðasta rekstrarári en framkvæmdarstjórinn David Gill sagði að staðan væri þó góð þar sem að félagið ætti um 165 milljónir punda inn á bankabók.

„Við eigum nóg af peningum í bankanum og því engin pressa á okkur að selja okkar bestu leikmenn,“ sagði Gill þá.

Þetta mikla tap Glazer-fjölskyldunnar þykir þó ekki gefa góð fyrirheit fyrir fjárhagsstöðu Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×